Hinsegin vika Urriðaholtsskóla verður haldin 6. - 10. mars. Markmið vikunnar er að sýna bæði nemendum, starfsfólki og foreldrum að skólinn okkar sé opinn fyrir margbreytilegum einstaklingum og að allir séu velkomnir.
Við ætlum að fagna fjölbreytileikanum og sýna hvort öðru virðingu og ást.
Fjölbreytileiki vísar til þess að engir tveir einstaklingar eru eins og við erum öll ólík.
Í vikunni verður lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir öllum, óháð hvernig viðkomandi er. Fjölbreytileiki getur átt um ótal margt t.d. kyn, kynhneigð, útlit, fatastíl, áhugamál, líkamsstærð, fjölskyldustærð o.s.frv. Vinnan er hluti af Lýðheilsu- og forvarnarstefnu Garðabæjar sem og Jafnréttisstefnu Garðabæjar en jafnréttisstefnan byggir á gildum sveitarfélagsins sem eru jákvæðni, fagmennska og áreiðanleiki og þeim gildum sem löggjafinn hefur m.a. sett fram í 2. mgr. 12. gr. jafnréttislaga og jafnræðisreglu 65. gr stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöður að öðru leyti.
Alla vikuna munu kennarar sinna ýmissi fræðslu og verkefnavinnu samhliða hefðbundinni kennslu og nota til þess útgefið fræðsluefni frá Menntamálastofnun. Að auki munu nemendur föndra, mála og skapa listverk tengd hinseginleikanum sem við munum skreyta skólann með. Starfsfólk Urriðaholtsskóla á leik- og grunnskólastigi sem og í frístund hefur fengið fræðslu frá Samtökunum 78 en Garðabær hefur gert samning við samtökin varðandi fræðslu fyrir starfsfólk og nemendur sem er mjög til fyrirmyndar.
Á föstudaginn, 10. mars, verður REGNBOGADAGUR svo við hvetjum nemendur til þess að mæta í litríkum fötum.