news

Aðalfundur foreldrafélags Urriðaholtsskóla og hinsegin fræðsla Samtaka 78

20 Okt 2023

Aðalfundur foreldrafélags Urriðaholtsskóla verður haldinn þriðjudaginn 7. nóvember kl. 19:30.

Á grunnskólastigi hafa nemendur í 3., 6. og 8. bekk fengið afar upplýsandi og faglega fræðslu á vegum Samtaka 78 um hinseginleikann og almennan fjölbreytileika samfélagsins. Garðabær hefur gert samstarfsamning við Samtökin 78 um að sinna þeirri fræðslu í sveitarfélaginu. Stjórnendur og starfsfólk skólans sat alla fyrirlestra nemenda en starfsmannahópurinn fékk hinsegin fræðslu síðastliðnu skólaári og mun fá frekari fræðslu einnig frá Samtökunum á líðandi skólaári. Ástrós Erla Benediktsdóttir félagsráðgjafi og markþjálfi hefur haldið utan um þessa fræðslu hér í skólanum frá Samtökum 78. Um er að ræða glærusýningu og umræður sem miða að því að vekja nemendur til umhugsunar um að við eigum alls konar fjölskyldur og að við erum alls konar. Frá mismundi löndum, tölum mismunandi tungumál, með mismunandi kynvitund og kynhneigð og að við eigum rétt á að vera eins og við erum. Þá er fjallað um fordóma og niðrandi orðræðu tengda hinsegin fólki.

Aðalnámskrá leik- og grunnskóla byggja á 6 grunnþáttum þar sem einn þáttur er lýðræði og mannréttindi og annar jafnrétti. Þar segir meðal annars:

,,Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta. Í þessu skyni er eðlilegt að nýta sér í skólastarfinu þekkingu sem nýjar fræðigreinar, svo sem kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði, hafa vakið athygli á. Undir jafnréttismenntun fellur m.a. nám um kyn og kynhneigð.“

Stjórn foreldrafélags Urriðaholtsskóla og skólasamfélagið hefur í framhaldi tekið ákvörðun um að forsjáraðilar fái einnig tækifæri til að fræðast um þessi mál. Á aðalfundi félagsins sem haldinn verður þriðjudaginn 7. nóvember kl. 19:30 verður kynning frá Samtökum 78 um hinsegin fræðslu.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Kosning í stjórn félagsins
  • Kynning og fræðsla frá Samtökum 78, fyrirlesari er Ástrós Erla Benediktsdóttir félagsráðgjafi og markþjálfi
  • Önnur mál

Þátttaka í foreldrasamstarfi er mikilvæg og við hvetjum ykkur til að taka þennan tíma frá. Þá viljum við einnig hvetja áhugasama um að gefa kost á sér í stjórn félagsins þar sem töluverð endurnýjun mun eiga sér stað núna. Öflugt foreldrafélag byggir á samvinnu og samstarfi ykkar og fram til þessa hafið þið sem heild staðið þétt við bak skólasamfélagsins og við trúum því að svo verði áfram. Hvetjum fólk af öllum kynjum til að taka þátt í þessu starfi með okkur.