news

Kinder Eco

03 Nóv 2022

Urriðaholtsskóli tekur þátt í Erasmus verkefni skólaárið 2022-2023.

Verkefnið heitir Kinder Eco og var vinnustofa tengd því haldin um síðustu helgi í Rijeka í Króatíu. Þær Agnieszka Kolowrocka, Elísabet Jónsdóttir, Helena Gylfadóttir, Sandra Stojkovic Hinic og Þorgerður Kristín Guðmundsdóttir fóru til Rijeka sem fulltrúar skólans í verkefninu. Vinnustofan var afar vel heppnuð þökk sé móttökuleikskólanum „Planet mašte“, forstöðumanni þeirra, kennurum, matreiðslumönnum og auðvitað börnum. Umsjónarmaður verkefnisins er félagið Vere Montis og er samstarfið því á milli þriggja aðila: Planet mašte, leikskólastigs Urriðaholtsskóla og Vere Montis. Kennararnir sem tóku þátt í verkefninu voru ánægðir með ferðina og lærðu margt nýtt og fengu margar skemmtilegar hugmyndir frá leikskólanum sem heimsóttur var.

Áhersla verkefnisins KINDER ECO er á íþróttir og vistvænt nám fyrir börn á aldrinum 3 til 7 ára. Með dvöl í náttúrunni, vistvænum athöfnum, hreyfingu og íþróttum, styrkja og þroska börn með eðlilegum hætti alla möguleika sína sem og jákvætt viðhorf til umhverfisins og reglubundinnar hreyfingar.

Fyrsta dag ferðarinnar var haldin fræðslusmiðja og hringborðsumræður, á öðrum degi fóru börn úr Planet mašte með foreldrum ásamt öllum fulltrúum samstarfsaðila í vettvangsferð á fjallið Učka sem er í nágrenni Rijeka. Þokuloftið gaf okkur sérstaka hauststemningu. Í Učka fengu börnin tækifæri til að læra eitthvað nýtt í gegnum fjölbreytta íþróttaiðkun í náttúrunni og hvernig á að vernda hana. Þá var farið í POKLON gestamiðstöð þar sem kynnt voru náttúruleg, menningarleg og söguleg verðmæti Učka náttúrugarðsins á nútímalegan og gagnvirkan hátt.

Í maí 2023 koma svo króatískir samstarfsaðilar okkar til Íslands og við erum full eftirvæntingar að taka á móti þeim og sýna þeim hvernig við útfærum þetta á Íslandi.