Opnunartími

Opnunartími er mánudaga til föstudaga frá kl. 7:30 til kl. 17:00.


Sumarfrí

Börn á leikskólastigi taka 4 vikur í sumarfrí yfir sumarmánuðina eða á orlofstímabilinu 1. maí - 15. september. Skila þarf sumarleyfisóskum fyrir 15. apríl 2020 til skólans vegna skipulagninga sumarleyfa.


Gjaldskrá leikskóla

Leikskólagjöldin eru greidd mánaðarlega og er sérstakt gjald í foreldrasjóð inni í gjöldunum. Greidd eru leikskólagjöld 11 mánuði á ári og er júlímánuður ávallt gjaldfrír nema ef börnin eru að hætta og fara í grunnskóla.

Gjaldskrá leikskóla Garðabæjar má finna hér.


Aðlögun

Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barn og foreldra. Umhverfið er nýtt, allt framandi og ókunnugt. Það er því mikilvægt að vanda vel til og gefa barninu þann tíma sem það þarf. Aðlögunin er einnig fyrir foreldrana, til að kynnast starfsfólki skólans, starfseminni og öðrum börnum og foreldrum. Með aðlögun er grunnur lagður að öryggi og vellíðan barnsins og samstarfi heimilis og skóla. Börn taka sér mislangan tíma til að aðlagast nýjum aðstæðum og þarfir þeirra geta verið ólíkar. Við munum vinna með hópa í aðlögun þar sem nokkur börn eru aðlöguð inn í einu en þó er alltaf farið eftir þörfum hvers og eins. Áður en aðlögun hefst er búið að boða foreldra saman á fund í skólanum þar sem gengið er frá vistunarsamningi og skólinn kynntur fyrir foreldrum.

Foreldrar þekkja börnin sín best og geta oft gefið skólanum góð ráð um hvernig gott er að nálgast barnið þeirra. Þá hvetjum við foreldra til að nýta sér útisvæði skólans og kynna það fyrir barninu sínu eins og kostur er. Það eykur á öryggi og styrkir aðlögunina. Börn sem hafa verið á öðrum leikskóla og eru að flytja sig um set þurfa mislanga aðlögun og er hún unnin í samráði við foreldra.


Vistunartími og veikindi

Þegar barn byrjar í skólanum er gerður skriflegur vistunarsamningur við foreldra um vistunartímann en skólinn er opinn virka daga frá kl. 7:30 til 17:00. Ef breytinga er þörf á vistunartíma er gagnkvæmur uppsagnartími einn mánuður og miðast við 1. og 15. hvers mánaðar. Breytingar taka alltaf mið af samsetningu hópsins og mönnun.

Leikskólaeining Urriðaholtsskóla er opin allt árið en öll börn taka samfellt sumarleyfi í fjórar vikur og fellur greiðsla fyrir júlímánuð niður. Leikskólaeiningin er lokuð 4 skipulagsdaga, þar af tvo hálfa daga, sjá nánar á skóladagatali. Þá er skólinn lokaður á aðfangadag og gamlársdag. Öll börn eru slysatryggð í skólanum.

Það er mikilvægt að skólinn fái allar upplýsingar um fjarvistir og eru foreldrar beðnir að tilkynna ef um veikindi er að ræða og ef barn er í leyfi. Í skólastarfinu ert gert ráð fyrir þátttöku barna og því ætti veikt barn eða barn sem er að veikjast að vera heima. Útiveru er sleppt í undantekningartilvikum. Þegar barn hefur verið veikt heima með hita þarf það var vera hitalaust í 1-2 sólarhringa áður en það kemur í skólann aftur. Veikist barn eða slasast í skólanum er strax haft samband við foreldra. Ef barn er með fæðuóþol eða ofnæmi þarf að skila inn læknisvottorði frá viðeigandi sérfræðingi.

Hér fyrir neðan má lesa um sameiginlegar áherslur leikskóla Garðabæjar um viðbrögð við veikindum barna.

Veikindi barnaSvefn og hvíld

Hvíld og svefn er börnum nauðsyn svo þau geti notið dagsins og þeirra verkefna sem hann býður upp á. Hvíldarstund er eftir hádegismat og er kyrrðarstund sem börn og starfsfólk á saman. Þau börn sem sofna ekki fá góða slökun og sögustund. Þessi samvera stuðlar að aukinni öryggiskennd og vellíðan barnanna. Í skólanum eru dýnur, lök, svæflar og teppi fyrir öll börn. En þau mega gjarnan hafa kúrudýr hjá sér að heiman sem er þá geymt hjá sængurfötum þeirra í skólanum. Svefntíminn er ákveðinn í samráði við foreldra.


Útivera og útbúnaður

Urriðaholtsskóli er staðsettur við dásamlega ósnortna náttúruperlu, Heiðmörk. Skólalóðin er vel hönnuð og búin góðum tækjum fyrir börn á leikskólaaldri. Markmið okkar er að njóta útiveru og tryggja að börnin festi útivist í sessi í sínu daglega lífi. Fatnaður barna þarf því að vera í samræmi við veðurfar.

Á hverri deild eiga börn hólf undir aukaföt og í því eiga að vera auka nærföt, sokkar/sokkabuxur, peysa og buxur.

Eftir árstíma þarf að hafa eftirfarandi í skólanum:

Pollagalli / vindgalli / snjógalli

Stígvél / kuldaskór / strigaskór

Húfa, lambúshetta / buff / derhúfa

Ullarvettlingar / vatnsheldir vettlingar

Hlý peysa / buxur / sokkar

Inniskór fyrir þá sem það kjósa

Skólinn er vinnustaður barnanna og því mikilvægt þau komi í þægilegum vinnufatnaði sem þolir hnjask og má óhreinkast. Þá er nauðsynlegt að merkja allan fatnað vel.

Á mánudögum er komið með allan fatnað fyrir vikuna og á föstudögum eru hólfin tæmd. Athugið að tösku undir fatnað þarf að taka heim.


Bleyjur og tilheyrandi

Í skólanum verða bleyjur og klútar fyrir þau börn sem nota bleyju. Foreldrar greiða kostnaðarverð og er innheimt í október og mars. Umhverfissjónarmið og gæði verða höfð að sjónarmiði þegar bleyjur eru valdar. Þegar kemur að þeim tíma að barn er tilbúið að hætta með bleyju er sú þjálfun unnin í samráði við foreldra. Mikilvægt er að fara ekki fram úr barninu og gefa því þann tíma sem þarf til að venjast koppnum og sleppa bleyjunni.