news

Urriðaholtsskóli settur í fjórða sinn

24 Ágú 2021

Urriðaholtsskóli var settur í fjórða sinn í dag og í tilefni þess var flaggað. Á grunnskólastigi hittu nemendur skólafélaga sína og kennara, börn í 1. bekk mættu í spjall við kennarana sína ásamt foreldri. Það er að vonum spenningur í okkur öllum. Mörg börn eru að byrja ný í skólanum en á grunnskólastigi eru 50 nýir nemendur sem við tökum fagnandi á móti.

Á leikskólastigi þýðir skólasetning að aðlögun nýrra leikskólabarna er langt komin og formlegt starf fer að fara í fastar skorður. Þar er einnig mikil fjölgun en frá síðasta hausti hefur leikskólabörnum fjölgað um 60 nemendur og frá því í vor hafa hátt í 90 börn hafið skólagöngu á leikskólastigi.

Frístund fyrir börn í 1.-4. bekk tekur til starfa strax á morgun og hafa yfir 90 börn verið skráð í hana.

Það verða yfir 360 nemendur við Urriðaholtsskóla í vetur sem er ákaflega gleðilegt. Þessum góða hópi sinna svo einstakir einstaklingar í ólíkum hlutverkum. Nýir starfsmenn eru mættir til starfa og þeir sem fyrir voru hafa tekið vel á móti þeim í upphafi skólaársins.

Við erum full tilhlökkunar fyrir vetrinum þrátt fyrir að COViD19 setji okkur einhverjar skorður í upphafi skólaársins. Bæði í aðlögun nýrra leikskólabarna og við skólasetningu grunnskólabarna. Minna flæði er á milli hópa, foreldrar hafa takmarkað aðgengi að skólahúsnæðinu og gestir sem koma í hús verða að gera vart við sig á skrifstofu. Allir leggjast á eitt um að sinna persónulegum sóttvörnum og fara í gegnum daginn af skynsemi.