news

Af hverju valdi Þórey svæðisstjóri á Keldu að starfa á leikskóla?

04 Feb 2021

Grein þessi birtist í Garðapóstinum nýverið og vildum við passa vel að hún færi ekki framhjá neinum.

Af hverju valdi ég leikskólann?

Það hefur lengi legið fyrir að mín hilla í lífinu væri starf með börnum og foreldrum. Þegar Urriðaholtsskóli tók til starfa vorið 2018 var ég svo lánsöm að fá að taka þátt í uppbyggingu leikskólastigs. Í því starfi nýtist nám mitt afar vel, en samhliða MA námi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf hef ég verið í M.Ed. námi í menntunarfræði leikskóla. Á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er styrkur grunnur reistur undir faglega sýn hvers nema og farið yfir þá þætti sem þurfa að vera til staðar til að leikskólastarf standi undir þeim væntingum og kröfum sem gerðar eru til þess. Að mörgu er að huga í því samhengi. Áherslu þarf að leggja á mikilvægi leiksins sem og að standa vörð um gildi hans í námi og þroska barna. Einnig þarf að leggja áherslu á sköpun, lýðræði, þátttöku barna og gleði í menntun þeirra. Þannig bjóðum við upp á leikskólastarf þar sem börn geta vaxið, þroskast og dafnað út frá sínum forsendum.

Börn í nútíma samfélagi verja miklum tíma í leikskólum og því er gríðarlega mikilvægt að tryggja gott og faglegt leikskólastarf. Á degi leikskólans er ekki hjá því komist að leiða hugann að því brottfalli sem er að eiga sér stað úr fagstétt leikskólakennara. Slíkt er mikið áhyggjuefni, enda fagþekking á þroska og menntun barna forsenda þess að hægt sé að sinna snemmtækri íhlutun, fylgjast með og meta þroska, styðja við sköpunar- og lífsgleði barna og standa vörð um mikilvægi leiksins. Ég tel að velferð ungra barna sé ekki tryggð nema fullorðna fólkið sem umgengst þau hvað mest (foreldrar og starfsfólk leikskóla) sé vel í stakk búið til að mæta þörfum þeirra, efla þroska, kenna þeim á uppbyggilegan hátt og sýna þeim hlýju, virðingu og nærgætni. Leikskólastarfið er frábært starf sem veitir gleði og fyllingu í lífið. Von mín og markmið er að fleiri sjái leikskólakennarastarfið sem þann gullmola sem það er og ákveði að slást í lið með okkur.

Lifi leikurinn!

Þórey Huld Jónsdóttir

Heimasvæðastjóri Urriðaholtsskóla