Urriðaholtsskóli starfar á tveimur skólastigum, leik- og grunnskóla og fullvaxinn verður hann fyrir börn á aldrinum 1 til 15 ára. Skólinn tók á móti sínum fyrstu nemendum í byrjun apríl 2018 en þá voru opnuð tvö heimasvæði fyrir leikskólastig, Klif og Kelda. Haustið 2018 tók svo grunnskólastig til starfa og í skólanum í dag eru nemendur frá 3 ára og upp í 8. bekk grunnskóla en það er sá árgangur (börn fædd 2009) sem mun vaxa upp í 10. bekk.

Byggingu fyrsta áfanga lauk haustið 2019. Í honum eru sex heimasvæði leikskólabarna fyrir um 130 heilsdagspláss og fjögur heimasvæði grunnskólabarna sem rúma vel 240 nemendur. Útibú frá Bókasafni Garðabæjar er á neðri hæð hússins sem og útibú frá Tónlistarskóla Garðabæjar.

Teymisvinna og samkennsla árganga er ríkjandi í skólanum þar sem hverju barni er mætt þar sem það er statt. Gildi skólans eru Virðing - Umhverfi - Ábyrgð. Mikið er lagt upp úr því að vinna með skapandi og opinn efnivið þar sem leikurinn fær mikið pláss á báðum skólastigum. Færni og fimi í leik og starfi er höfð að leiðarljósi til að byggja sterkan grunn og áhersla á að vinna með fjölbreyttar en um leið gagnreyndar kennsluaðferðir.

Barnið og þarfir þess eru ávallt í brennidepli um leið og starfsfólk skapar gott skólasamfélag fyrir börn, foreldra, samstarfólk og nærumhverfið.


Hagnýtar upplýsingar

Urriðaholtsskóli, Vinastræti 1-3 í Garðabæ

Símanúmer skólans: 591-9500

Skólastjóri: Þorgerður Anna Arnardóttir

Aðstoðarskólastjóri grunnskólastig: Una Guðrún Einarsdóttir

Aðstoðarskólastjóri leikskólastig: Þórey Huld Jónsdóttir

Sérkennslustjóri: Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Skrifstofustjóri: Þóra Hallgrímsdóttir

Urriðakot, frístundaheimili - umsjónarmaður: Íris Ósk Ingadóttir. Beinn sími eftir kl. 14:00, 591-9560

Urriði, félagsmiðstöð - Forstöðumaður: Ragnhildur Jónsdóttir


Samskiptasáttmáli foreldra og starfsfólks


Verklag um velferð barna

Verkefnið Velferð barna og ungmenna í Garðabæ er unnið í samstarfi allra grunnskóla bæjarins og nærsamfélags þeirra. Markmið þess er að samhæfa verklag og vinnubrögð allra sem vinna með börnum og unglingum í bænum þegar grunur kviknar um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun. Undir hatti velferðarverkefnisins er líka haldið utan um gagnabanka um námsefni á sviði jafnréttis, kynheilbrigðis og velferðar.

Frekari upplýsingar og leiðbeiningar um forvarnir gegn ofbeldi má nálgast í eftirfarandi rafritum:
  • Rafbókin: Ofbeldi gegn börnum. Í þessari handbók er fjallað um ofbeldi sem sum börn verða fyrir. Markmiðið með útgáfunni er að upplýsa kennara og annað starfsfólk skóla um einkenni og áhrif ofbeldis á börn og vekja athygli á forvörnum, inngripi og úrræðum sem eru til staðar til að tryggja sem best velferð nemenda. Aftast í bókinni er yfirlit yfir náms- og fræðsluefni. Bókin er gefin út að tilstuðlan Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum í samstarfi við Námsgagnastofnun.
  • Kynferðisofbeldi gegn börnum. Málsmeðferð réttarkerfisins og réttarvernd barna. Gefið út af Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi og Rannsóknarstofu Ármanns Snævarr (RÁS) um fjölskyldumálefni. Ritið er einkum ætlað fagstéttum sem starfa innan réttarkerfisins, en allir sem láta sig kynferðisofbeldi gegn börnum varða ættu einnig að hafa gagn af lestri þess. Markmið ritsins er að greina meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Lanzarote samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu og Leiðbeiningareglur Evrópuráðsins um barnvænlega réttarvörslu og draga fram þau atriði sem ber að hafa að leiðarljósi við meðferð réttarkerfis á málum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Í ritinu er einnig meðferð máls um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum innan réttarkerfisins kortlagt, fjallað er um hlutverk, vinnulag og samspil ólíkra aðila og greint hvernig haga megi málsmeðferð til að tryggja fyrirmyndarvinnubrögð við kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Höfundar eru Hrefna Friðriksdóttir og Anni G. Haugen.